miðvikudagur, 25. júlí 2007

Um grein Jóns B.K. Ransu í Mogganum 24.7

Þið hafið vonandi lesið greinina hans J.B.K. Ransu í Mogganum í gær. Það gladdi mig að lesa þessa grein, ummæli hans eru að mínu mati hverju orði sannari. Langar rétt aðeins og örstutt að tjá mig um þetta bara á stikkorðaformi (ég ætti víst frekar að vera að skrifa blessaða BA-hlussuna...)

Listaspírur Íslands eru tiltölulega þröngur hópur fólks. Maður getur flett í gegnum yngri hópinn á myspace og séð eldra liðið á opnun eða á næstu tónleikum. Gróskan er samt mikil, áhuginn er fyrir hendi, framkvæmdagleðin líka til staðar. Umræðan í rituðum miðlum er aftur á móti öll á sama planinu. Ef hún er þá fyrir hendi. Hún er, eins og Ransu segir, oftar á formi lýsinga á sýningum en raunveruleg gagnrýni, þar eð engin er krítíkin. Spurning hvort það sé vegna smægð samfélagsins sem enginn þorir að vera og beinskeittari í þessum efnum. En umfjöllunin er af skornum skammti og eins og Ransu bendir réttilega á er engin speglun. Fólk virðist ekki hafa miklar skoðanir á þessum málum, virðist ekki finna hjá sér þörf til að ræða málin. Fleira en áhugaleysi veldur að mínu mati, m.a. úrval fjölmiðla á landinu og áherslur þeirra og svo hefðin, það virðist engin hefð fyrir heitum skoðanaskiptum um listir hérlendis. Stundum nær umfjöllunin ekki lengra en í "hvað, hvar, hvenær" dálka blaðanna. Og auk þess að umfjöllun um íslenska myndlist vantar þá saknar maður líka umræðum um það sem er að gerast í listheiminum world wide (ég var þó mjög ánægð með umfjöllunina í Lesbókinni í sumar um bæði Biennalinn og svo um Documenta, enda Mogginn eina blaðið sem er að sinna listumfjöllun af einhverju viti).
Listfræðingar og listnemendur eru fjarri því að vera smár hópur en rödd þeirra virðist ekki ná að heyrast. Þeir eru ekki nærri því nógu margir fengnir til að skrifa í blöðin, eða sýna því ekki áhuga, og þar stendur hnífurinn í kúnni. Auk þess sem eitt vandamálið er það er hreinlega ekki til neitt íslenskt listatímarit! Moggin getur ekki gert allt víst... Já, marg í þessu, margt að bæta...

Ég hef þetta stutt en tek bara undir með Ransu : látum í okkur heyra!

over & out, Tótan.

3 ummæli:

karina hanney sagði...

jei :D
mig langaði eimitt að minnast á þessa grein og er mikið ánægð það þú hafir opnað umræðuna!! ég var eimitt sammála honum í þessari grein varðandi þetta hlutlausa umræðuleysi sem hefur undið uppá sig.. ég fór líka að hugsa afhverju þetta hafi þróast svona? þrátt fyrir vanan þá kannski einkennir þessi hugsunarháttur okkar litlu þjóð að mörgu leyti... en það er allt annar hausverkur.. með þá rosalegu grósku sem hefur verið í listgreinanum undanfarin misseri þá hefði maður haldið að umræðan yrði sterkari enda mikið til að tala og skrifa um.. kannski að það vanti bara einhverja ákveðna gagnrýna hugsun í mannskapinn og er almenningur hræddur eða smeykur við að láta sína skoðun í ljós... eða jafnvel bara opna umræðuna ... það að skrifa grein i blaði (eða ritgerð ef útí það er farið) verður alltaf að bera með sér ákveðið fordómaleysi svo að viðkomandi komist ekki á svartan lista eða fái ekki ljósmynd birta af sér á næstu opnun sem hann mætir á ;) ... en ég held lika að umræðan eigi lika erfitt með að dafna vegna þeirra áðurnefndra skilningsleysis sem að heftir menn.. þú getur ekki bakkað upp það sem að þú hefur ekki kynnt þér... þá takmarkast umræðan bara við þá fáu en margágætu einstaklinga sem hafa tekið af skarið hjá ágætum en vart hlutlausum morgunblaðsmiðli...

af öllu má ofgera og er tími hlutleysis hjals og einnamiðilsgreina að dala.. tökum okkur rödd eða að minnsta kosti gefum kost á okkar þýðingu og túlkun á íslensku listamannalífi

besos
miss concuela vanilla strawberry

Bergsveinn Þórsson sagði...

Þar sem ég er ekki áskrifandi moggans missi ég oftast af svona greinum sem leynast utan Lesbókarinnar. Tek Lesbókina alltaf af foreldrunum, þau hafa takmarkaðan áhuga á því sem er þar. Mér finnst að mogginn mætti skipuleggja þetta betur og setja allt listastöff undir einn hatt, fyrir menn eins og mig sem birtast í skjóli nætur og ræna aukablöðum ;)

Það er spurning hvernig það sé hægt að koma af stað almennilegri umræðu.. Hef takmarkaða trú á dagblöðunum, þar sem allt er snöggsoðið og þeir hafa varla fyrir því að skrifa almennilegar fréttagreinar (það þarf víst tilefni til, eins og helgarblöðin, til þess að birta slíkar greinar). Sama er uppá tengingnum með heimasíður blaðanna, samt finnst mér þær vera upplagður vettvangur fyrir ítarlegri umfjöllun. Maður sæi alveg fyrir sér ágætis myndlistarumfjöllun á vefsvæðum dagblaðanna... Mogginn má líka í guðanna bænum fara að venja sig á að birta Myndlistagagnrýni ÁÐUR en umræddri sýningu lýkur!!

Við skulum ekkert vera að minnast á sjónvarpið..

Útvarpið er hins vegar ágætt, Víðsjá á rás 1 fjallar um sýningar og viðburði í myndlist. En eins og Lesbókin er þetta svona fræðimanna samsuða. Fyrir vikið verður myndlistin oftast pínulítið útundan..

Hvar sem umræðan á að fara fram, getur ekki verið að ákveðið metnaðarleysi sé til staðar (metnaðarleysi að koma af stað opinberum umræðum). Þar sem fólki finnst kannski um lítinn hóp að ræða og geti þar af leiðandi bara rætt hlutina sín á milli..

Johanna.bjork sagði...

guði sé lof fyrir ArtímaRit. Ég held að það sé blað í tíma útgefið.
Það er undarlegt að á lilum og afmörkuðum markaði menntamanna, þá á ég við fólkið sem lifir og hrærist í menningunni, skuli vera svo mörg bókmenntarit sem raun ber vitni. Tímarit Máls og Menningar, Ritið og það nú síðast Stína (undarlegt með nafnið, ætli þau séu að stæla Torfhildi?).
Ekki þykir mér myndlist síðra tilefni til skrifta en bækur, ef ekki bara betra. Myndlist er frekar aðgengileg hér. Og það tekur styttri tíma að virða hana fyrir sér svo í raun ættu fleiri að hafa möguleika á að skoða hana. Hvers vegna hefur þetta þróast svona, held ég áfram að spyrja?
Gæti verið að það sé smæðin sem hái okkur og það að allir þekki alla? Að þess vegna þori hreinlega enginn að skrifa neitt nema örfá hlutlaus orð til þess að særa engann. Ég man að einn kennaranna okkar nefndi þetta eitt sinn sem hugsanlega ástæðu. Við Þórunn hugðumst eyða þessu og skrifuðum grein í Torfa. Sú grein var tvískipt. jákvæð og neikvæð. Ég myndi vilja sjá fleiri svoleiðis, jafnvel skrifa þær sjálf. En það er enginn markaður.
Mín heitasta ósk er að ArtímaRit sé komandi til að koma aftur (ég get ekki sagt "komið til að vera" því það kemur ekki út fyrr en í byrjun september).
Og að það þróist jafnvel út fyrir veggi háskólans. Við þurfum þennan vettvang.